Hvernig barst Grasset-próf til Íslands?
Okkur lék hugur á að vita hvernig
Grasset-prófið hefði borist til Íslands og
spurðum nokkra eldri kollega okkar um
þetta. Í ljós kom að taugalæknar sem
lærðu í Englandi, Bandaríkjunum, Noregi
og Danmörku höfðu ekki lært eða
tileinkað sér þetta heiti í framhaldsnámi
sínu. Ásgeir B. Ellertsson hafði hins
vegar vanist því að tala um Grassetpróf
þegar hann var við framhaldsnám
í taugalækningum við Karolínska
sjúkrahúsið í Stokkhólmi árin 1964-1968.
Margir fylgdu í fótspor Ásgeirs og
lærðu sína taugalæknisfræði við sama
sjúkrahús. Þaðan virðist notkun heitisins
því hafa borist til Íslands. Grasset styrkti
svo stöðu sína hér á landi eftir því
sem taugalæknum menntuðum í Svíþjóð
fjölgaði.
Hver var Grasset og
hvaðan kom hann?
Læknirinn Joseph Grasset (1849-1918)
var fæddur og uppalinn í Montpellier
í Suður-Frakklandi. Hann stundaði
nám í læknisfræði í heimaborg sinni
og þar starfaði hann síðar sem læknir
og prófessor í læknisfræði. Grasset
hafði einkum áhuga á tauga- og
geðlæknisfræði og einnig dulspeki.6
Í taugalæknisfræðinni eru væg sjúkdómsteikn
oft mikilvæg í greiningarskyni
en þau geta einnig verið gagnleg til að
greina á milli vefrænnar og starfrænnar
röskunar (á ítölsku eru þau kölluð i
„piccoli segni“). Grasset lýsti nokkrum
slíkum sjúkdómsteiknum sem eru nefnd
eftir honum.7
1) Sjúklingur með heilahvelsskaða, sem
veldur lömun, snýr höfði og augum
í átt að hinu skaddaða hveli og frá
hliðinni sem er lömuð (Grasset´s law).
Í staðflogi snúa höfuð og augu frá
heilahvelinu sem veldur floginu.
2) Þegar liggjandi sjúklingur með
lamaðan fótlegg reynir að lyfta
honum spyrnir hann niður með
heilbrigða fætinum, en í starfrænni
truflun lyftist heilbrigði fóturinn
(Grasset´s phenomenon).
3) Hjá sjúklingi með helftarlömun
er samdráttur höfuðvendis (m.
sternocleidomastoideus) eðlilegur þeim
megin sem lömunin er (Grasset´s sign).
Sjúklingurinn getur því snúið höfði til
gagnstæðrar áttar við lömuðu hliðina.
Hvað eigum við að nota í staðinn
fyrir heitið Grasset-próf?
Svíar hafa ekki enn gert sér grein fyrir
hvaðan notkun þeirra á Grasset heitinu
á umræddum þætti taugaskoðunar
er kominn. Þeir hafa hins vegar lagt
Grasset til hliðar og í ljósi þess sem
sagt er hér að framan er eðlilegt að við
gerum slíkt hið sama. Í staðinn leggjum
við til að tekið verði upp íslenskt heiti
yfir þá skoðun sem Grasset heitið hefur
hingað til verið notað um. Okkar tillaga
er að heitið armréttupróf verði notað í
stað Grasset-prófsins.
1. Handleggur helst í óbreyttri stöðu
og sígur ekki. Þá mætti tala um
neikvætt armréttupróf.
2. Hendi ranghverfist og handleggur
beygist um olnboga og getur sigið.
Armréttupróf telst jákvætt.